Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for janúar, 2008

Helgarfrí eru góð

Jæja það er fjórði frídagurinn minn í dag og þessi verður rólegur. Það lítur út fyrir að H.G sé að kvefast svo hann verður inni í dag. Í gær fórum við í Løvens hule (ljóna gryfjuna) sem er hér í næsta nágrenni. Ég fór með H.G. þangað fyrir rúmu ári síðan og undanfarið höfum við farið oft þarna framhjá og hann hefur beðið um allan janúarmánuð að fara aftur í þessa holu. Ég er aðalega hissa að hann muni eftir þessu húsi. Ég var allaveganna búinn að gleyma því hvernig þetta var. Þetta er frábær staður fyrir börn en eins og blanda af læknabiðstofu og rútubílastöð fyrir foreldra. Leiksvæðið er að sjálfsögðu aðalega fyrir börnin en fullorðinir meiga fara inn að hjálpa börnunum sínum. Þarna eru gömul tímarit sem maður hefði ekki áhuga á að lesa þó þau væru ný, óþægileg sæti, sjoppa með hamborgurm, samlokum, pylsum, sælgæti og ólystugu kaffi. Ég held að ég mæli með dýragarðinum eða H.C. Andersen húsinu næst eða bara leikvöllinn. Síðasta sunnudag buðum við Þórey, Atla og krökkunum í kvöldmat. Þar sem bóndadagur var á föstudaginn síðasta sem ég komst að þegar ég fékk blóm frá frúnni þegar ég kom heim úr vinnunni. Þá var hálfgerð þorramatsstemmning, harfiskur, lambakjöt og skyr. Það er nú ekki alveg pláss fyrir svona marga í mat þannig að krakkarnir borðuðu bara í stofunni og við inni í eldhúsi. Ég held að það hafi nú bara gengið ágætlega upp þrátt fyrir það. Á laugardeginum tók Jóhanna próf (og náði því), á meðan fórum við feðgar á Skógardýrið Hugo sem er ekki uppáhalds skógardýrið mitt svo ég lagði mig aðeins í seinnihluta myndarinnar og var kominn í draumsvefn þegar myndin var búinn. Það má kannski líka um kenna mikilli vinnu undanfarið. Laugardagskvöldið fór að stórum hluta í að horfa á skemmtiefni fyrir sjónvarp á þúskjá. Hér að neðan eru sýnishorn ef einhver hefur áhuga.

Faldar japanskar myndavélar.

Japanskur skemmtiþáttur.

Og svona er belgískt skemmtiefni.

Read Full Post »

Það er ekkert sérstakt að frétta nema vinna og sofa. Reyndar átti mamma 66 ára afmæli í gær til hamingu með það mamma.  Og Sævar mágur á afmæli í dag til ég held að hann sé 48 ára. Til lukku með það Sævar.Jóhanna grípur hverja pestina á fætur annari. Maður heldur í þá veiku von um að smitast ekki. H.G er með myndina Gullhornin á heilanum þessa stundina og teiknar Þór, Þórshamar, Loka og fleiri persónur úr myndinni. Ágætt að læra smá goðafræði í leiðinni.

Ég fann Ivor Cutler á you tube um helgina. Því miður fann ég ekki uppáhalds lagið mitt með honum Favorit Jam minnir mig að það heitir. Ég hef svosem bara heyrt það lag einu sinni í ríkisútvarpinu í þætti sem Jón Hallaur Stefánsson var með um Ivor Cutler. Sennilega 2006 árið sem hann lést . En textinn var einhvern veginn svona: What’s your favorite jam? Traffic jam. It’s the jam for a man. what’s wrong with rasberry? Svo man ég ekki meira. En það er augljóst að maðurinn hefur verið alger snillingur.

Read Full Post »

Já, ég tók þá ákvörðun í morgun að gerast góður og heiðarlegur maður og sótti um áskrift að internettengingu. Þangað til verð ég að treysta því að nágranninn okkar sem hefur ekki verið nógu klókur að læsa rádernum sínum svo ég og Jóhanna erum búin að misnota þá tenginu svo mikið að maður vonar standslaust að hún/hann slökkvi aldrei á eða læsi rádernum sínum. Ég sótti að sjálfsögðu um þessa áskrift í gegn um nágrannatenginguna. Það skrítna við það að sækja um tengingu á internetinu er að maður sækir bara um umsóknarblað sem svo síðar verður sent heim til manns. Í staðin fyrir að geta klárað þetta eins og hvað annað sem maður getur keypt á netinu eins og á Amason og Íbei.  Eftir þetta ótrúlega framtak fórum við og sóttum um leigubætur og komumst að því í leiðinni að ég og H.G. vorum enn skráðir á Jagtvej 59 st.1. Því hefur nú verið kippt í lag. Fleiru var kippt í lag í dag, við keyptum hillu í geymsluna, ljós á ganginn og hanka í eldhúsið fyrir svuntur og viskastykki. Svo fyrst maður var að kaupa og kaupa þá keypti ég útvarp í eldhúsið. Reyndar er þetta Denver hljómfluttingstæki með geislaspilara og ég sé fram á að geta tengt æpodinn við þetta drasl.  Jóhanna segir að þetta sé eitt það ljótasta sem ég hef keypt í okkar 10.5 ára sambandi. Þetta kostaði 100 kr. meira en útvarp, þá er ég ekki að tala um Tivoli útvarp sem mig langar mest í í eldhúsið. Sama hvað ég reyni kem nú ekki auga á fegurð Prosonic túpusjónvarpsins eða hp prentarans sem ég keypti í fyrra eða hilluna sem við keyptum í geymsluna. En allt þjónar þetta sínum tilgangi, nema þá kannski prentarinn er í einhverju ólagi, en hann kostar litlu meira en blekið í hann svo það má alltaf skipta.  Þegar ég var að bora fyrir ljósinu á ganginum þá bilaði borvélin. Sumsé rofinn á borvélinni festist inni svo það þurfti að slökkva á innstunginni til að vélin dræpi á sér.  Ég kláraði samt að bora upp snagana.

Vinnuféttir:

Mér hefur verið tjáð að janúar og febrúar væru rólegustu mánuðurnir á árinu í vinnunni og næstum ekkert að gera. Það hefur reynst vera lygi því fyrsta vikan er bara búin að vera geðveik og þessi vika er ekkert mikið minni. Sama ruglið,  vinni vinni vinni vinn, vinni vinni vinni. Ég á nú samt líka í frí á morgun sem fer öruglega í að skipuleggja geymsuna. Þá loksins tekst okkur að koma íbúðinni í viðunnandi ástand. En svo er að vinna fimmtudag, föstudag, laugardag, sunnudag, mánudag, þriðjudag. Það lítur sem sagt ekkert út fyrir að maður hafi tíma til að blogga í vikulokin og byrjun næstu en máski gerist eitthvað sem maður getur ekki þagað yfir.

Read Full Post »

Það fer allt að smella hér í íbúðinni. Þetta er búið að taka rúman mánuð. Um daginn fórum við H.G í byggingavöruverslunina Silvan, sem er hér c.a. 300 m frá, til að kaupa ljós í herbergið hans. Þegar við vorum búinir að velja ljós kom H.G. auga á drullusokk og spurði hvort hann mætti kaupa svoleiðis. Þar sem ég og Jóhanna erum búin að vera leita að drullusokk í rúmt ár þá fannst mér tilvalið að kaupa hann. Ég átti samt ekki von á því að drullusokkurinn myndi verða á top 10 listanum hjá honum yfir dót. Hann er búinn að leika með þennan drullusokk í 4 daga og í gær spurði hann mömmu sína hvort hann mætti ekki taka hann með í leikskólann.

Áðan kom maður að laga ísskápinn sem við fengum áður en við komum til Íslands. Hann dæmdi ískápinn ónýtan svo við fáum nýjan ísskáp á mánudaginn.

Í þessari viku er ég búinn vera sjálfskipaður Íslandskonsúll og er búinn að gefa vinnufélögum mínum íslensk matvæli. Í gær var ég með hvalkjötssmakk í vinnunni það féll í kramið hjá flestum. En á mánudaginn síðasta gaf ég þeim harðfisk að smakka, steinbít og ýsu sumum fannst ýsan góð en steinbíturinn féll ekki í góðan jarðveg hjá flestum. Það fóru tveir beint í ruslið og hræktu þessu útúrsér með æluna í hálsinum. Af þeirri reynslu fékk ég smá vantraust hjá sumum í gær þegar ég var að gefa þeim hrefnukjötið. Það traust er semsagt komið til baka. Kannski maður prófi að gefa þeim hákall næst.

Í dag skellti ég mér í klippingu hjá honum Dogan sem betur fer fylgdi ekkert nudd í þetta skiptið.  Nú lítur maður ekki út sem utangarðsmaður þó maður villist á hæðum.  Annars er ég nú farinn að vanda mig.

Read Full Post »

Nú erum við aftur kominn til Óðinsvéa og maður er bara búinn að vera á útopnu að mála, bora, negla nagla í veggina, hengja upp ljós, taka upp úr kössum, finna staði fyrir hluti og koma þeim fyrir. Ég trúi því varla hvað þetta er mikið drasl sem við eigum. Ótrúlega mikið dót sem er að fara fylla geymsluna ég trúi varla að þetta hafi allt rúmast fyrir á Kollegíinu. Ég er búinn að fara c.a. 30 ferðir niður í kjallara með kassa og út með rusl og allt mögulegt. Um kl. 5 í dag var eitthvað farið að draga af mér, en veitti því athygli að það var eitthvað öðurvísi við tröppurnar en hélt svo áfram inn í íbúðina sá skó sem ég kannaðist ekki við svo ég vellti fyrir mér hver væri eiginlega kominn í heimsókn? Það gat ekki verið margir sem komu til greina. Það var ekki fyrr en það kom kona á móti mér sem gólaði af hræðslu og undrun að ég áttaði mig á því, ég var ekki í réttri íbúð heldur í íbúðinni fyrir ofan. Ég held að mig hafi ekki brugðið neitt minna en henni. Eftir á að hyggja er reyndar mjög skrítið hvað ég labbaði svo langt inn í íbúðinna án þess að fatta nokkuð því það voru allt of mörg atriði sem ég hefði átt að kveikja á. T.d. ein auka hæð, öðruvísi lykt, ekkert drasl á ganginum, skyndilega skór sem ég kannast ekkert við. Ég er nokkuð viss um að þessi kona muni að læsa hurðinni næst. Hún heldur örugglega að ég sé stelsúkur eða öfuguggi eða bæði. Við erum sem sagt á góðri leið með að verða vinsælusu nágrannarnir í húsinu.

Read Full Post »

Gleðilegt og gott ár.

Það er nýársdagur í dag og brottfarar dagur á morgun. Maður er búinn að gera sitt besta í að heimsækja fólk og hitta hér og þar en það hefur greinilega ekki verið nóg þvi ég er ekki búinn að sjá alla sem mig langaði að hitta á í þessari ferð. Þeir sem urðu útundan í þessari lotu eru beðnir afsökunar og maður reinir bara að standa sig betur næst. Hinum þakka ég bara samveruna í bili. Ég reikna með að lífið sé ekki allveg búið svo það verða einhverjir möguleikar í framtíðinni að hafa samband. Tölvutæknin er víst líka allveg orðin ótrúleg. Og svo er Danmörk bara 3 tíma í burtu plús bið og tafir á flugvöllum og aðrir 2 tímar í lest til Óðinsvéa. Alltaf heitt á könnunni á Falen 39 og jafnvel kaldur einhverstaðar í nágreninu. Næstu skrif verða sennilega ekki fyrr en við verðum búin að fá okkur internettengingu í nýju íbúðina. Nema maður stelist inn á tengingu hjá einhverjum kærulausum með þráðlaust net í nágreninu. Þangað til óska ég öllum gleðilegs og góðs nýárs til allra sem rekast á þessa kveðju. Og þakka þeim sem ég þekki fyrir góð og gleðileg liðin ár.

Read Full Post »