Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for mars, 2008

Maður verður að reikna með að kuldakastið sem var hérna um daginn sé búið í dag var 15°c. Sumartíminn er líka kominn þó maður sé aldrei tilbúinn fyrir það. Mér finnst ég alltaf tapa klukkutíma úr mínu lífi við þessar breytingar. En það er fleira sem virðist ætla að breytast, því í gær komumst við H.G. varla út úr íbúðinni okkar því það var fólk að flytja út úr íbúðinni hér fyrir ofan. Sem vekur hjá manni spurningar, hvort ég hafi átt eitthvern þátt í þessum brottfluttningi, eftir að hafa vaðið þarna óboðinn inn í janúar. Svo maður má fara að krjúpa í áttina að Mekka, færa Óðni fórnir, fara með faðirvorið eða bara taka sénsin á að fá góða nágranna í íbúðina fyrir ofan. Annars verður maður bara að taka upp gamla iðju frá fyrra ári. Sem sagt kvarta, kveina og setja álög á fólk.

H.G er alveg að verða búinn með páskaeggin sín. Hann er mun áhugasamari um málsháttamiðana en áður, hann kallar þá orðakort sem er kannski meira réttnefni á renningum. Í dag var hann að þykjast lesa á þessa miða, á einn miðann las hann „viltu appelsínu“ og á hinn las hann „ljónið borðar hor, það er ekkert slor“. Við Jóhanna opnuðum seinna eggið okkar í gær og það kom sami málsháttur og í hinu fyrra „margt kemur nýtnum að notum“ svona getur ekki verið tilviljun, þetta hlýtur að vera ábending.

Read Full Post »

Breytingar eru góðar

Þá er maður búinn að ná í nýju gleraugun. H.G. finnst þetta skrýtið og segir að ég sé eins og pabbi Bróa í myndinni Kalli á þakinu. Það er kannski ekki alveg vitlaust hjá honum en ekki heldur rétt. Það sem er mikilvægast er að ég sé betur.

En svona er nýja lúkkið gleraugna.jpg

Eitt það sem mér skemmtilegast við þetta bloggforrit er að sjá á hvaða leitarorðum fólk slysast inn á síðuna. Í dag var það:

stevia, „bundið fyrir augun“ inurl:2008, fisk í danmörku og í gær var það : miriam makeba, húsreglur, ristil hreinsun. Einnig hefur töluvert verið leitað af stópípu, dönskum tölum og reiðhjól. Mér til gamans ákvað ég að leita líka að reiðhjóli enda hjóla ég 20 km á vinnudögum mínum. Það koma upp 24000 síður sem innahalda orðið reiðhjól. Wikipedia er með góð lýsingu á tækinu og þar segir: Reiðhjól er farartæki sem knúið er áfram af vöðvum líkama hjólreiðamannsins. Hjólreiðar eru stundaðar sem ferðamáti, sem íþrótt, og til afþreyingar og útivistar.

Hér eru nokkrar myndir af reiðhjólum sem er ekki hægt að kaupa í Erninum

Stefán Pálson bloggar líka um reiðhjól

Og svo er mikið bloggað um menn sem hafa haft kynmök við reiðhjól. Sú frétt hefur algerlega farið fram hjá mér.

Reiðhjól er sem sagt ekki svo slæmt leitarorð.

Read Full Post »

Gleðilega páska allir saman.

Ég nýtti lélegt heilsufar mitt í gær við að setja myndir frá síðasta ári og byrjun þessa árs á þessa egósentrísku rövlsíðu. Þær eru til hægri á síðunni ef einhver hefur áhuga. Reikna með að setja inn fleiri ef ég fæ tíma.

Í morgun vaknaði H.G. klár í að finna páskaegg. Hann fékk send tvö páskaegg, frá ömmum sínum og öfum. Við þökkum fyrir öll páskaeggin og páska allt sem er búið að senda okkur. Þar sem það leit út fyrir að vera stór súkkulaði skammtur fyrir 5 ára strák þá fékk hann pappapáskaegg með dóti í frá okkur foreldrunum. Hann var mjög sáttur við þetta allt saman annars virðist hann kunna sér betur hóf í sætindunum en við foreldrarnir sem kunnum okkur ekkert hóf í neinu. Við ættum kannski frekar að fá pappaegg.

Read Full Post »

Eins og manni hlakkaði mikið til að fara í páskafrí þá féll sú gleði í gær í leiðinda flensu og hita. Ég er aðeins hressari í dag. Það er reyndar búið að vera leiðinda veður svo það er ekkert að því að hanga inni. Í nótt eða í morgun kom smá páskahret. Þegar H.G.V. sá snjóinn sló hann nýtt hraðamet að fara úr náttfötunum í útiföt. Hann er búinn að vera svo mikill innipúki undanfarna mánuði. Hann vill varla vera úti nema það sé sól.

Hér eru myndir sem ég tók út um eldhúsgluggann í morgun.

Read Full Post »

Þá er maður kominn í páskafrí sem er bara gaman. Þetta er ekki búin að vera létt vika framan af. Á sunnudaginn síðasta fór ég á þennan kúrsus/hvatferð. Þetta voru aðallega skátaæfingar. T.d. að búa til „edderkopspind“ Kóngulóarvef úr köðlum og bandi, og koma svo fólki í gegn um götin án þess að snerta snúrurnar og ganga í skógi eftir köðlum með bundið fyrir augun. Svo var gist aðfararnótt mánudagsins, ef gista má kalla þar sem allir voru ræstir ca. kl 3 eða 4 um nóttina, og keyrðir í ca.2 km. fjarlægð með vasaljós og kort, svo áttum við að rata heim. Menn voru reyndar í misjöfnu ástandi til að rölta þetta í myrkrinu. En allt gekk það vel. Ég er bara mest ósáttur við vera ekki á launum þessa nótt fyrst kúrsinn hélt áfram. Snemma á mánudagsmorguninn voru allir ræstir í morgunmat og svo niður að stórum læk sem var kallaður á og við áttum að gera bjálkabrú sem átti að halda átta manneskjum í einu og tveim börnum. Þegar því var lokið var smá pása og við áttum að fara niður að vatni þar sem liðinu var skipt í tvö lið og áttum að ferja okkur yfir á bát eftir ákveðnum reglum sem við áttum að vinna saman með mismunandi hagsmuni. Það er ótrúlegt hvað þessir Danir geta þrasað um svo einfalda samninga. Svo er ég búinn að vera drulluþreyttur eftir þessa ferð og að vinna í gær og í dag.

Hér er sýnishorn úr þessari ferð

Á sunnudaginn fermdist Harpa frænka mín. Til hamingu með það Harpa. Og í gær var bróðir hennar Nói 9 ára. Til hamingju með það Nói.

Í dag er afmælisdagurinn minn sem fór í vinnu svona framan af en ég var búinn kl.14.30 og var tekið fagnandi af fjölskyldunni. Svo var eldað fyrir mig eftir óskum H.G. Pitsa og súkkulaðikaka sem var bara ljómandi afmælis matur. Fínt að vera kominn í páskafrí og láta stjana svona við sig.

Read Full Post »

Vikan er búin að vera fábreytt þar til í dag. Mánudagur, þriðjudagur og miðvikudagur fóru í að vinna svo það er ekkert meira um þá að segja, gærdagurinn fór í þreytulegt hangs, aðalega notaður í að glamra á hljóðfærin sem til eru á heimilinu með slökum árangri. Þar sannast máltækið æfingin skapar meistarann. Gærkvöldið var notað til að blása úr eggjum fyrir daginn í dag sem var planaður fyrir páskaföndur með H.G. Dagurinn í dag fór rólega af stað. H.G. bað um frí í leikskólanum og aldrei þessu vant fékk hann það. Svo byrjuðum við strax eftir morgunmatinn að græja það að fara að mála á egg. Minn maður var alveg búinn að fá nóg eftir klukkutíma og fór inn í herbergið sitt að leika sér svo við foreldrarnir sátum með allt föndrið.

Um hádegisbilið fór Jóhanna út í búð. Nokkru seinna hringdi dyrabjallan, sem gerist ekki á hverjum degi, ég var nokkuð viss um að þetta væri Jóhanna svo ég opnaði bara og fór svo sjáfur fram á stigagang þá birtist þarna póstmaður með kassa frá Íslandi. Þarna voru snemmbúnar afmælisgjafir til mín frá fjölskyldunni, Prins Póló, harðfiskur, bækur, kaffikrús með loki (vantar einmitt svona á sunnudaginn næsta) og einnig páskaegg og brandara bækur fyrir Helga Gný og okkur fjölskylduna. Kortin hafa eitthvað skolast til á leiðinni svo ég er ekki alveg með á hreinu hvað er frá hverjum en mig grunar samt frá hverjum hvað er en ég/ við þökkum kærlega fyrir okkur. Þetta á allt eftir að koma sér vel og við höfum nú þegar fengið okkur harðfisk og Prins Póló. Helgi Gnýr var mest hissa á þessu öllu saman og sagði „amma og afi halda bara að það séu komnir páskar.“ En samt mjög sáttur við þessa óvæntu sendingu.

Rúmlega þrjú vildi H.G. fara í hvíld og láta lesa fyrir sig. Það var gert, þegar við vorum búnir að lesa eina bók þá var ég orðinn svo þreyttur að ég fór bara að halla mér en gleymdi að taka gleraugun af mér sem varð til þess að það brotnaði festing sem halda þeim saman. Þar með lauk þeirri hvíld hjá mér og ég stökk í gleraugnabúðina sem er með Icberlin gleraugun. Þar sem ég er búinn að salta það í hálft annað ár að fara til augnlæknis að láta mæla í mér sjónina þá lét ég mæla sjónina í leiðinni. Sem leiddi til þess að ég þarf að fá mér sterkari gler í gleraugun og fara að ganga með gleraugu allan daginn. Gleraugnaumgjörðin sem ég hef er orðin svolítið slöpp og með sama áframhaldi endist hún kanski í eitt til tvö ár í viðbót, kannski minna. Svo ég ákvað að fá nýja umgjörð þó það sé rúmlega helmingi dýrara. Þessi kaup passa ekki alveg inn í sparnaðaráætlun okkar Jóhönnu en þar sem linsureikningurinn hennar fer að detta út bráðum þá sléttist aðeins úr þessum kaupum. Svo þarf ég líka að tékka hvort það sé ekki gleraugnastyrkur hjá fagfélaginu hérna eins og heima. Nýja lúkkið kemur samt ekki fyrr en eftir páska.

Á sunnudaginn næsta verður svokallað team bulding námskeið í vinnunni minni. Það verður einhver óvissuferð og við komum heim á mánudaginn. Það eina sem mig vantaði í „pakklistann“ fyrir þá ferð er krús með loki sem ég fékk í afmælisgjöf í dag. Útivistargallinn sem ég keypti hjá Tyffa fyrir rúmu ári síðan á líka eftir að sanna gyldi sitt eina ferðina enn en sá gír er búinn að standa sig vel í vetur. Hér hefur verið rok og rigning næstum því upp á dag síðan í ágúst og það er náttúrulega spáð rigningu og slyddu á sunnudag og mánudag. Myndavél er eitt atriði í umræddum lista sem veldur mér smá hugarangri. Því myndavélin sem ég á er frekar stór en ég get fengið vasamyndavélina hennar Jóhönnu lánaða eða tekið vídeó vélina. Kannski getur maður haft einhvern vinnufélagann að féþúfu ef maður gleymir ekki myndagræjum eins og alltaf. Samt eru svona hvataferðir ekki alveg minn tebolli. En maður spilar bara með.

Read Full Post »

Við feðgar fórum í klippingu í gær og eru glerfínir um hausinn. H.G. fékk bláan lit, úr púða sem við keyptum í Ikea um árið, í hárið vinstra megin fyrir nokkrum vikum síðan. Það tókst ekki allveg að klippa það úr en það mesta fór samt. Við förum alltaf til tyrkjans hann Dogans og borgum 250 dkk fyrir okkur báða (ferlega billegt). Sem betur fer hefur hann látið af því að gefa mér axlarnudd í stólnum sem var mjög vandræðaleg stund hér í haust.

Í dag var páska-fjárssjóðs leit í leikskólanum hans H.G. (sem hann kallaði alltaf páska leit eða påskejagt en ekki påske-skattejagt.) Því fylgdi smá dramatík því hann var framan af ævinni með eggjaofnæmi og er bara nýlega farinn að fá hrein egg hér heima. Við höfðum ekkert látið vita af því á leikskólanum að hann mætti fá egg. Hann var frekar fúll þegar við komum að sækja hann í dag og sagði okkur að leikskólakennararnir vildu ekki leyfa honum að borða eggið sem hann fann í þessari fjársóðs leit. Hann fékk samt eitthvað súkkulaði. Það er bara fúlt að vera rengdur þegar maður hefur rétt fyrir sér og segir satt. Allavegana erum við foreldrarnir búnir að koma því á framfæri að hann megi fá egg í leikskólanum.

Í kvöld gaf hann mömmu sinni „röndótt frí“ að bursta tennurnar og lesa. Það þýðir að hún á að bursta og lesa á morgun og ég næsta dag og svo framvegis. Hann valdi sér „bókina um allt“ Veröldin Okkar alfræðibók fyrir börn sem hann fékk í gjöf frá Jóhanni frænda og Silju frænku sinni í haust. Það er ótrúlegt hvað sýgur þennann fróðleik í sig. Ég held að ég hafi varla vitað af risaeðlum þegar ég var fimm ára en hann þekkir nöfnin á þeim jafn vel og krökkunum á leikskólanum. Og hellingur af öðrum fróðleik sem hann drekkur í sig úr þessarri bók. Ég mæli með þessari bók fyrir börn.

Read Full Post »

Í gær skrapp ég til Herning á Fúd Expó. Ég fór bara einn, tók lestina yfir en þegar ég var kominn í Herning var svolítið vandasamt að komast til sýningahallarinnar. Það átti að vera einhver strætó sem fer frá lestarstöðinni og að Herning messecenter ég sá hann hvergi svo beið ég örugglega í hálftíma eftir leigubíl í grenjandi rigningu. Ég var varla kominn inn þegar ég hitti Ragnar Lárusson uppstrílaðann í jakkafötum. Hann var þarna að fiska eftir nýjum vörum fyrir Danól/Ölgerðina. Ég hafði ekki hugmynd um að það væri búið að sameina þessi fyrirtæki. Það var ekkert þarna sem var eitthvað váá fyrir utan margar tegundir af góðum bjór sem ég smakkaði. Þarna var reyndar nokkuð sem ég hef ekki séð áður eins og kavíar sem er gerður úr þangi, rauð pálmaolía, nýjar tegundir af grænmeti eins radicco salat sem var í laginu eins og romain og fleira. Þarna smakkaði ég í fyrsta skiptið á ævinni hrámarinerað kjúklingahjarta. Annars var þessi sýning eins og aðrar matvælasýningar fullar af tækjum og tólum til matargerðar og öðrum tækjum sem ekki eru ætluð til eldunar s.s. bílar, spilakassar, diskóljós og fleira. Svo endaði ég sýninguna eins og ég byrjaði. Hitti Ragga og við fengum okkur einn bjór saman. Svo hringdi ég á leigubíl og beið í klukkutíma eftir honum.

Ég sá á blogginu hans Ingþórs sem er maðurinn hennar Ollu systur hennar Bryndísar vinkonu Jóhönnu. Hljómsveitina Hurra Torpedo. Hurra Torpedo eru Normenn sem hafa útvíkkað notkun eldhúsáhalda og spila gullfalleg lög með þessum gripum. Mér finnst því einstaklega vel við hæfi að hafa þá í þessu bloggi

Read Full Post »

Hr. H.G. er farin að gera töluverðar kröfur til mín um að vera með tiltækan brandara þegar hann biður mig um að segja einn slíkan. Ég er í stökustu vandræðum að finna nýja brandara. Því flestir brandarar sem ég kann eru ekki við hæfi barna eða of flóknir fyrir 5 ára. Ég er búinn að segja honum um tómatinn sem gekk yfir götu með ágætum árangri og með það góðum árangri að ég hef útvíkkað þennan brandara í allskonar grænmeti og ávexti. Og svo er það brandarinn um konuna sem fór með páfagaukinn sinn í strætó (sá brandari er sagður í óþökk mömmunar) en þykir samt fyndinn. Stuttir brandarar eru mjög óvinsælir og maður fær að heyra það um leið. Þetta er orðin það mikil pressa að ég hef farið á internetið til að leita af efni því ég hef ekki endalaust hugmyndaflug til að búa til brandara og tala nú ekki um fyrir svona töff krád. Yfir kvöldmatnum var ég mjög stoltur af sjálfum mér og sagði honum að ég hafi fundið brandara á internetinu. Það eitt og sér féll svo vel í kramið að hann hló í c.a. 30 sek. Hans brandarar eru aðeins öðruvísi og frumsamdir. Hann sagði mér einn þegar ég kom heim úr vinnuni um daginn.

„Það var einusinni kokkur að elda súpu svo var súpan svo heit að það komu spengingar upp úr súpunni og sprungu á hann svo hann brenndi sig á rassinum svo hann pissaði í súpuna, svo kom meistarinn, sem var ekki að baka kom og smakkaði súpuna og spýtti henni á vegginn og spurði hvaða skítafýlu súpa er þetta eiginlega?“

Það er bara eitthvð svo erfitt að toppa svona brandara án þess fara yfir mörkin. Þannig að ég held áfram að segja þessa draugfúlu brandara þar til hann fermist.

Eitt af uppáhalds lögunum hans er þetta (sennilega vegna Shrek 2 en ekki út af þetta er einn af uppáhalds tónlistarmönnum pabbans)

Read Full Post »

Þessi dagur er búinn að vera hrikalegur. Ég er ekki búinn að gera neitt fyrir utan að gera morgunmat og kvöldmat. Það er rok og rigning úti og ekkert okkar er búið að nenna að fara út úr húsi. Það er ágætt. Ég afrekaði það að hætta öllum styrkjum til góðgerðamála. Það verða einhverjir aðrir að bjarga heiminum í staðinn. Væntanlega brenn ég í helvíti fyrir það. Sumir segja að þar sé fjörið.

Nýir ítalskir bloggvinir hafa látið á sér kræla enda er þeim tekið fádæma vel á þessarri síðu. Hér er upphafsmaðurinn af þessu skemmtilega uppátæki.

Read Full Post »