Vikan er búin að vera fábreytt þar til í dag. Mánudagur, þriðjudagur og miðvikudagur fóru í að vinna svo það er ekkert meira um þá að segja, gærdagurinn fór í þreytulegt hangs, aðalega notaður í að glamra á hljóðfærin sem til eru á heimilinu með slökum árangri. Þar sannast máltækið æfingin skapar meistarann. Gærkvöldið var notað til að blása úr eggjum fyrir daginn í dag sem var planaður fyrir páskaföndur með H.G. Dagurinn í dag fór rólega af stað. H.G. bað um frí í leikskólanum og aldrei þessu vant fékk hann það. Svo byrjuðum við strax eftir morgunmatinn að græja það að fara að mála á egg. Minn maður var alveg búinn að fá nóg eftir klukkutíma og fór inn í herbergið sitt að leika sér svo við foreldrarnir sátum með allt föndrið.
Um hádegisbilið fór Jóhanna út í búð. Nokkru seinna hringdi dyrabjallan, sem gerist ekki á hverjum degi, ég var nokkuð viss um að þetta væri Jóhanna svo ég opnaði bara og fór svo sjáfur fram á stigagang þá birtist þarna póstmaður með kassa frá Íslandi. Þarna voru snemmbúnar afmælisgjafir til mín frá fjölskyldunni, Prins Póló, harðfiskur, bækur, kaffikrús með loki (vantar einmitt svona á sunnudaginn næsta) og einnig páskaegg og brandara bækur fyrir Helga Gný og okkur fjölskylduna. Kortin hafa eitthvað skolast til á leiðinni svo ég er ekki alveg með á hreinu hvað er frá hverjum en mig grunar samt frá hverjum hvað er en ég/ við þökkum kærlega fyrir okkur. Þetta á allt eftir að koma sér vel og við höfum nú þegar fengið okkur harðfisk og Prins Póló. Helgi Gnýr var mest hissa á þessu öllu saman og sagði „amma og afi halda bara að það séu komnir páskar.“ En samt mjög sáttur við þessa óvæntu sendingu.
Rúmlega þrjú vildi H.G. fara í hvíld og láta lesa fyrir sig. Það var gert, þegar við vorum búnir að lesa eina bók þá var ég orðinn svo þreyttur að ég fór bara að halla mér en gleymdi að taka gleraugun af mér sem varð til þess að það brotnaði festing sem halda þeim saman. Þar með lauk þeirri hvíld hjá mér og ég stökk í gleraugnabúðina sem er með Icberlin gleraugun. Þar sem ég er búinn að salta það í hálft annað ár að fara til augnlæknis að láta mæla í mér sjónina þá lét ég mæla sjónina í leiðinni. Sem leiddi til þess að ég þarf að fá mér sterkari gler í gleraugun og fara að ganga með gleraugu allan daginn. Gleraugnaumgjörðin sem ég hef er orðin svolítið slöpp og með sama áframhaldi endist hún kanski í eitt til tvö ár í viðbót, kannski minna. Svo ég ákvað að fá nýja umgjörð þó það sé rúmlega helmingi dýrara. Þessi kaup passa ekki alveg inn í sparnaðaráætlun okkar Jóhönnu en þar sem linsureikningurinn hennar fer að detta út bráðum þá sléttist aðeins úr þessum kaupum. Svo þarf ég líka að tékka hvort það sé ekki gleraugnastyrkur hjá fagfélaginu hérna eins og heima. Nýja lúkkið kemur samt ekki fyrr en eftir páska.
Á sunnudaginn næsta verður svokallað team bulding námskeið í vinnunni minni. Það verður einhver óvissuferð og við komum heim á mánudaginn. Það eina sem mig vantaði í „pakklistann“ fyrir þá ferð er krús með loki sem ég fékk í afmælisgjöf í dag. Útivistargallinn sem ég keypti hjá Tyffa fyrir rúmu ári síðan á líka eftir að sanna gyldi sitt eina ferðina enn en sá gír er búinn að standa sig vel í vetur. Hér hefur verið rok og rigning næstum því upp á dag síðan í ágúst og það er náttúrulega spáð rigningu og slyddu á sunnudag og mánudag. Myndavél er eitt atriði í umræddum lista sem veldur mér smá hugarangri. Því myndavélin sem ég á er frekar stór en ég get fengið vasamyndavélina hennar Jóhönnu lánaða eða tekið vídeó vélina. Kannski getur maður haft einhvern vinnufélagann að féþúfu ef maður gleymir ekki myndagræjum eins og alltaf. Samt eru svona hvataferðir ekki alveg minn tebolli. En maður spilar bara með.
Read Full Post »