Magnús Guðfiskur dó í gær eftir tæplega viku dvöl hér á heimilinu. Hann var samt langlífastur af þeim þrem sem komu inn á heimilið síðasta laugardag. Svo kórónaðist öll þessi sorgarsaga þegar fiskabúrið brotnaði við þrif í gær. Það varð til þess að við feðgar fórum í dýrabúðina og keyptum 50 l. fiskabúr sem þarf að standa með vatni í viku áður en fiskar og plöntur verða settar í það. Þá reynir á þolinmæðina hjá sumum.
Dagurinn byrjaði seint hjá mér í dag. Ég fékk nefnilega að sofa út til hádegis, enda búinn að vera hálfslappur með hálsbólgu. H.G. er líka búinn að vera með kvef, við litla fjölskyldan erum eiginlega búin að vera með kvef frá áramótum. Í dag dóu tveir af þremur fiskum sem H.G. fékk síðasta laugardag. Hann er búinn að vera svolítið leiður yfir þessu og þurfti að horfa á myndina Yfir gerðið til að hressa sig við. Áður en hann horfði á myndina, ákvað hann að fiskurinn sem eftir lifði skyldi heita Magnús Guðfiskur. Hann var eitthvað að spá í að gefa honum millinafnið Hermann en hætti við það. Síðan spurði ég hann hvort við ættum að jarða, henda eða sturta dauðu fiskunum niður í klósettið. Eftir útskýringar fannst honum best að henda þeim í ruslið en vildi kryfja þá fyrst, svo við krufum annan þeirra. Við erum búin að lofa honum að hann fái einn til tvo nýja fiska á laugardaginn.
Jóhanna er farin að gera klárt fyrir ungann og keypi notaðan barnabílstól í dag á 600 ddk. eftir hina vikuleigu leikfimi. Barnavagnaleitin heldur áfram. Við gerum ráð fyrir rúmum mánuði í viðbót.
Á meðan Jóhanna var í leikfimi og setti ég nokkrar myndir inn á 2008 vetur og vor í myndasíðunum hér til hægri.
Skrifað í Uncategorized | 4 Comments »
Í gær efndum við samninginn við H.G. og keypum 3 gullfiska. Ég man ekki tegundarheitin á þeim. Og það er heldur ekki búið að skíra þá þó þeir séu í vígðu fiskabúrsvatni frá dýrabúðinni. Afgreiðslumaðurinn í gæludýrabúðinni var einstaklega fróður um gullfiska og gullfiskafræðin vall upp úr honum. Ég var löngu hættur að geta meðtekið allan þennan fróðleik sem maðurinn hafði yfir að búa um gullfiska og var farinn að segja já og einmitt á tiltölulega réttum stöðum, þá greindi ég allt í einu að maðurinn var farinn að tala um klósett sem væru sett í fiskabúr til þess að sturta niður skítnum úr þeim. Hann sagðist ekki vera með þetta á lager en hafði séð þetta á sýningu og kostaði 12000 dkk. Svo spurði hann mig hvað venjuleg góð klósett kostuðu. Eins og ég væri nýbúinn að gera verðkönnun á vatnssalernum. Sérkennilegur maður það.
Í gærkvöldi var ég að aðstoða í veislu út í bæ, ég vissi eiginlega ekkert hvað ég átti að fara gera annað en að elda mat þegar ég sagði já við þessarri aukavinnu fyrir rúmlega 2 vikum. En það kom í ljós í gær að þetta var fermingaveisla í heima húsi. (Frábært). Þetta var þriggja rétta máltíð í fimm og hálfa klst. örugglega 10 ræður, 15 söngvar og reykpásur á milli rétta. Frekar mikið hangs en allt í lagi þegar maður er á tímakaupi.
Í dag átti Jóhanna afmæli við skutumst því aðeins í dýragarðinn og dóluðum okkur þar milli 13:30 og 18. H.G. er búinn að fara þarna svo oft með okkur og tvisvar með leikskólanum að hann er farinn að taka fararstjórnina að sér inni í dýragarðinum. Við byrjuðum á að fara inn í hús þar sem hann gat klappað lifandi slöngu og fiktað í skinnum og beinagrindum af dýrum. Annars var þetta nokkuð venjuleg dýragarsferð en það er búið að taka í gagnið nýja salernisaðstöðu þar sem eru kassar með hægðum ýmissa dýra til sýnis. Þessar uppstillingar minna svolítið á bókina um moldvörpuna sem vildi vita hver skeit á hausinn á henni. Það er alltaf huggulegt að fara í dýragarðinn.
Skrifað í Uncategorized | 4 Comments »
Síðastliðna 2-3 mánuði er H.G. búinn að vera biðja um gæludýr, aðalega hund. Í hvert skipi erum við búin að segja við hann að það sé ekki hægt því við meigum ekki vera með gæludýr í þessari íbúð. Svo erum við búin að segja við hann að það sé mikil vinna við að eiga gæludýr. Maður þarf nefnilega að hugsa um þau. Fyrir tveim vikum gerðum við samning við hann að ef hann tæki til í herberginu í tvær vikur á hverjum degi þá gæti hann fengið fisk í fiskabúrið sem Fugl 98 og Froskur Svampson sálugu bjuggu í um þriggja mánaða skeið. Það er búið að vera mikið streð að fá hann til að taka til dótið í herberginu sínu til þessa svo maður hefur varla geta gengið þar inn án þess að stíga á Legó kubb eða kall. Núna eru þessar tvær vikur liðnar og herbergið hans hefur verið mjög snyrtilegt allan tímann og maður getur gengið inn í herbergið hans án þess að hugsa hvert maður stígur. Í morgun kl.7 kom hann upp í rúm til okkar og spurði hvort við ættum ekki að fara kaupa fisk í gæludýrabúðinni (svona til að fyrirbyggja allan miskilning). Nú er komið að því að standa við okkar hluta samningsins. Svo er bara að sjá hvað hann verður duglegur að taka til í herberginu sínu áfram ásamt því sinna viðbótarverkefninu að þrífa fiskabúrið og sjá um fiskinn/ana.
Skrifað í Uncategorized | 2 Comments »
Það er mikið um dýralíf á leiðinni í og úr vinnunni. Í vetur hafa fashanar, haukar og íkornar verið í veginum fyrir mér og svo í einum garði var hjartarfjölskylda, mamma, pabbi og bambi. Ég hef ekki séð pabbann síðan fyrir jól. Nokkuð ljóst um hans örlög. Í fyrradag var ég næstum því búinn að hjóla yfir körtu sem ákvað að fara lúshægt yfir Rugårdsvej sem er talsverð umferðargata. Ég velti því fyrir mér í sirka 3 sekúndur að að veiða hana handa H.G. en hafði ekkert handhægt til þess svo ég hjólaði bara framhjá henni og lét hana halda áfram á vit forfeðra sinna. Það má taka þetta sem merki um að það sé farið að vora hér á Fjóni. Önnur sönnun þess að það er farið að vora er að um páskana kom skjórapar til að gera hreiður í tré fyrir utan eldhúsgluggan okkar. Þeir hljóta að hafa tafist eitthvað í kuldakastinu um páskanna því þeir eru enn að djöflast í þessu. þriðja sönnunin er að við keyptum strigaskó handa H.G. Hann vildi helst fá svart og hvítköflótta Vans skó (held ég að þeir heiti) en hvítir skór eru ekki fyrir 5 ára stráka. Nú fer maður bara að hlakka til sumarsins með nýjan unga á heimilinu og unga fyrir utan eldhúsgluggann.
Skrifað í Uncategorized | 2 Comments »
Maður verður að reikna með að kuldakastið sem var hérna um daginn sé búið í dag var 15°c. Sumartíminn er líka kominn þó maður sé aldrei tilbúinn fyrir það. Mér finnst ég alltaf tapa klukkutíma úr mínu lífi við þessar breytingar. En það er fleira sem virðist ætla að breytast, því í gær komumst við H.G. varla út úr íbúðinni okkar því það var fólk að flytja út úr íbúðinni hér fyrir ofan. Sem vekur hjá manni spurningar, hvort ég hafi átt eitthvern þátt í þessum brottfluttningi, eftir að hafa vaðið þarna óboðinn inn í janúar. Svo maður má fara að krjúpa í áttina að Mekka, færa Óðni fórnir, fara með faðirvorið eða bara taka sénsin á að fá góða nágranna í íbúðina fyrir ofan. Annars verður maður bara að taka upp gamla iðju frá fyrra ári. Sem sagt kvarta, kveina og setja álög á fólk.
H.G er alveg að verða búinn með páskaeggin sín. Hann er mun áhugasamari um málsháttamiðana en áður, hann kallar þá orðakort sem er kannski meira réttnefni á renningum. Í dag var hann að þykjast lesa á þessa miða, á einn miðann las hann „viltu appelsínu“ og á hinn las hann „ljónið borðar hor, það er ekkert slor“. Við Jóhanna opnuðum seinna eggið okkar í gær og það kom sami málsháttur og í hinu fyrra „margt kemur nýtnum að notum“ svona getur ekki verið tilviljun, þetta hlýtur að vera ábending.
Skrifað í Uncategorized | 4 Comments »
Þá er maður búinn að ná í nýju gleraugun. H.G. finnst þetta skrýtið og segir að ég sé eins og pabbi Bróa í myndinni Kalli á þakinu. Það er kannski ekki alveg vitlaust hjá honum en ekki heldur rétt. Það sem er mikilvægast er að ég sé betur.
En svona er nýja lúkkið gleraugna.jpg
Eitt það sem mér skemmtilegast við þetta bloggforrit er að sjá á hvaða leitarorðum fólk slysast inn á síðuna. Í dag var það:
stevia, „bundið fyrir augun“ inurl:2008, fisk í danmörku og í gær var það : miriam makeba, húsreglur, ristil hreinsun. Einnig hefur töluvert verið leitað af stópípu, dönskum tölum og reiðhjól. Mér til gamans ákvað ég að leita líka að reiðhjóli enda hjóla ég 20 km á vinnudögum mínum. Það koma upp 24000 síður sem innahalda orðið reiðhjól. Wikipedia er með góð lýsingu á tækinu og þar segir: Reiðhjól er farartæki sem knúið er áfram af vöðvum líkama hjólreiðamannsins. Hjólreiðar eru stundaðar sem ferðamáti, sem íþrótt, og til afþreyingar og útivistar.
Hér eru nokkrar myndir af reiðhjólum sem er ekki hægt að kaupa í Erninum
Stefán Pálson bloggar líka um reiðhjól
Og svo er mikið bloggað um menn sem hafa haft kynmök við reiðhjól. Sú frétt hefur algerlega farið fram hjá mér.
Reiðhjól er sem sagt ekki svo slæmt leitarorð.
Skrifað í Uncategorized | 5 Comments »
Gleðilega páska allir saman.
Ég nýtti lélegt heilsufar mitt í gær við að setja myndir frá síðasta ári og byrjun þessa árs á þessa egósentrísku rövlsíðu. Þær eru til hægri á síðunni ef einhver hefur áhuga. Reikna með að setja inn fleiri ef ég fæ tíma.
Í morgun vaknaði H.G. klár í að finna páskaegg. Hann fékk send tvö páskaegg, frá ömmum sínum og öfum. Við þökkum fyrir öll páskaeggin og páska allt sem er búið að senda okkur. Þar sem það leit út fyrir að vera stór súkkulaði skammtur fyrir 5 ára strák þá fékk hann pappapáskaegg með dóti í frá okkur foreldrunum. Hann var mjög sáttur við þetta allt saman annars virðist hann kunna sér betur hóf í sætindunum en við foreldrarnir sem kunnum okkur ekkert hóf í neinu. Við ættum kannski frekar að fá pappaegg.
Skrifað í Uncategorized | 4 Comments »
Eins og manni hlakkaði mikið til að fara í páskafrí þá féll sú gleði í gær í leiðinda flensu og hita. Ég er aðeins hressari í dag. Það er reyndar búið að vera leiðinda veður svo það er ekkert að því að hanga inni. Í nótt eða í morgun kom smá páskahret. Þegar H.G.V. sá snjóinn sló hann nýtt hraðamet að fara úr náttfötunum í útiföt. Hann er búinn að vera svo mikill innipúki undanfarna mánuði. Hann vill varla vera úti nema það sé sól.
Hér eru myndir sem ég tók út um eldhúsgluggann í morgun.
Skrifað í Uncategorized | 4 Comments »
Þá er maður kominn í páskafrí sem er bara gaman. Þetta er ekki búin að vera létt vika framan af. Á sunnudaginn síðasta fór ég á þennan kúrsus/hvatferð. Þetta voru aðallega skátaæfingar. T.d. að búa til „edderkopspind“ Kóngulóarvef úr köðlum og bandi, og koma svo fólki í gegn um götin án þess að snerta snúrurnar og ganga í skógi eftir köðlum með bundið fyrir augun. Svo var gist aðfararnótt mánudagsins, ef gista má kalla þar sem allir voru ræstir ca. kl 3 eða 4 um nóttina, og keyrðir í ca.2 km. fjarlægð með vasaljós og kort, svo áttum við að rata heim. Menn voru reyndar í misjöfnu ástandi til að rölta þetta í myrkrinu. En allt gekk það vel. Ég er bara mest ósáttur við vera ekki á launum þessa nótt fyrst kúrsinn hélt áfram. Snemma á mánudagsmorguninn voru allir ræstir í morgunmat og svo niður að stórum læk sem var kallaður á og við áttum að gera bjálkabrú sem átti að halda átta manneskjum í einu og tveim börnum. Þegar því var lokið var smá pása og við áttum að fara niður að vatni þar sem liðinu var skipt í tvö lið og áttum að ferja okkur yfir á bát eftir ákveðnum reglum sem við áttum að vinna saman með mismunandi hagsmuni. Það er ótrúlegt hvað þessir Danir geta þrasað um svo einfalda samninga. Svo er ég búinn að vera drulluþreyttur eftir þessa ferð og að vinna í gær og í dag.
Hér er sýnishorn úr þessari ferð
Á sunnudaginn fermdist Harpa frænka mín. Til hamingu með það Harpa. Og í gær var bróðir hennar Nói 9 ára. Til hamingju með það Nói.
Í dag er afmælisdagurinn minn sem fór í vinnu svona framan af en ég var búinn kl.14.30 og var tekið fagnandi af fjölskyldunni. Svo var eldað fyrir mig eftir óskum H.G. Pitsa og súkkulaðikaka sem var bara ljómandi afmælis matur. Fínt að vera kominn í páskafrí og láta stjana svona við sig.
Skrifað í Uncategorized | 2 Comments »